Sænska ríkissjónvarpið fjallaði snemma í morgun um Icesave-málið og ræddi meðal annars við Guðmund Árna Stefánsson, sendiherra Íslands í Stokkhólmi. Hann sagði m.a. að mikið óvissuástand og spenna væri á Íslandi vegna málsins.
Þá sagði sænski blaðamaðurinn Olle Zachrison, sem starfar á viðskiptavefnum e24 í Svíþjóð, að fólk yrði að skilja, að málið væri afar erfitt fyrir Íslendinga. Ef upphæðirnar í Icesave-málinu væru yfirfærðar yfir á Svíþjóð þýddu þær að Svíar þyrftu að greiða þúsundir milljarða sænskra króna.
„Því er skiljanlegt að málið valdi deilum á Íslandi," sagði Zachrison. Hann sagði einnig að hafni Íslendingar Icesave-lögunum muni taka við mikil pólitísk óvissa á Íslandi.
Sænska sjónvarpið ræddi einnig við Gunnar Hólmstein á Íslandi, sem sagði að málið væri afar flókið og sjálfur hefði hann ekki gert upp við sig hvernig hann myndi greiða atkvæði í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Umfjöllun sænska sjónvarpsins um Icesave