Undirbúningur vegna endurbyggingar Laugavegs 4 - 6 er nú í fullum gangi og er verið að rífa frá húsinu þá hluta sem ekki verða nýttir. Gamlir olíulampar, 140 ára gamlar dagblaðaslitrur og þorskalýsisflaska er meðal þeirra muna sem komu í ljós við þá vinnu.
Elstu hlutar húsanna við Laugaveg 4 - 6 eru tæplega 140 ára gamlir en áður en hægt verður að byggja húsin upp að nýju þarf að endurteikna og endurhanna húsin. Páll V. Bjarnason arkitekt sér um endurhönnun eldra hússins, Laugavegs 6.
Páll segir auðvelt að lesa sögu hússins með því að skoða það og bendir á för eftir skilveggi og innréttingar, málningaleifar á veggjum og veggfóðursleifar máli sínu til stuðnings. Fyrir leikmann er hins vegar erfitt að ímynda sér að fúaspýturnar í grind hússins geti einhvern tíman orðið að alvöru húsi á ný.
Þá hafa fundist ýmsir munir við frárifið, s.s. restar af gömlum vörulager frá húsbúnaðarverslun Bierings, þorskalýsisflaska og ævagamlar dagblaðaslitrur, s.s. úr Víkverja frá 1874, Vísi frá 1978 og Þjóðólfi frá 1880 þar sem eigandi blaðsins, Matthías Jochumson lýsir því yfir að hann sé búinn að selja það.
Brátt sér fyrir endann á hönnunarferli húsanna og býst Páll við því að hafist verið handa við framkvæmdir eftir tvo til þrjá mánuði.