Skírteini og vottorð hækka um 50%

Gjöld vegna meðferðar mála fyrir dómstólunum voru hækkuð um áramótin …
Gjöld vegna meðferðar mála fyrir dómstólunum voru hækkuð um áramótin til að standa straum af auknum kostnaði við dómskerfið. Rax / Ragnar Axelsson

Mikil hækkun varð á ýmsum gjöldum til ríkissjóðs eftir að Alþingi samþykkti lög um ráðstafanir í skattamálum 21. desember síðastliðinn. Nokkur ákvæði laganna, m.a. um olíugjald, kílómetragjald, vörugjald, bifreiðagjald og stimpilgjald, tóku þegar gildi. Önnur öðluðust gildi 1. janúar síðastliðinn. Þar á meðal breytingar á lögum um virðisaukaskatt og um svonefndar aukatekjur ríkissjóðs.

Skírteini hafa hækkað

Til aukatekna ríkissjóðs teljast ýmis gjöld sem borgararnir þurfa að inna af hendi t.d. vegna þjónustu sem þeir sækja til sýslumanna og lögreglustjóra auk dómstóla landsins. Þar á meðal eru t.d. ökuskírteini, vegabréf og skotvopnaleyfi auk skírteina og leyfa vegna ýmissa atvinnuréttinda. Þannig þurfa jafnt málflutningsmenn, læknar, sjúkraþjálfarar og sjóntækjafræðingar nú að borga meira en áður fyrir leyfi til að stunda störf sín. Sama á við um margar aðrar starfsstéttir sem njóta atvinnuréttinda.

Einnig hækkuðu gjöld fyrir borgaralegar hjónavígslur, að ekki sé talað um leyfi til að skilja að borði og sæng og til að fá lögskilnað.

Mikil hækkun á dómsmálagjöldum vekur athygli. Þannig hækkar gjald fyrir útgáfu stefnu vegna meðferðar einkamáls í héraði úr 1.350 krónum í litlar 15 þúsund krónur. Dómkvaðning matsmanna hækkar úr 3.900 kr. í 15.000 kr. og áfrýjunarleyfi vegna einkamáls fyrir Hæstarétti kostar nú 50.000 kr. en kostaði 12.700 kr. svo dæmi séu tekin.

Á liðnu hausti greindi Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra frá því að fallist hefði verið á beiðni Hæstaréttar um 16 milljóna króna viðbótarframlag á þessu ári. Það var vegna fyrirsjáanlegs álags í kjölfar bankahrunsins. Þá kynnti dómsmálaráðherrann auknar fjárveitingar til héraðsdómstólanna. Samtals var viðbótarfjármagn til dómstóla landsins áætlað 106 milljónir króna. Ráðherrann lagði til að þessum kostnaði yrði mætt með hækkun dómstólagjalda á báðum dómstigum. Hún benti jafnframt á að þessi gjöld hefðu ekki hækkað um langa hríð. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert