Vonar að skýrslan klárist á réttum tíma

Í rannsóknarnefndinni sitja Sigríður Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson.
Í rannsóknarnefndinni sitja Sigríður Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson. Ómar Óskarsson

Páll Hreins­son, formaður rann­sókn­ar­nefnd­ar Alþing­is, treyst­ir sér ekki til að full­yrða að skýrsla nefnd­ar­inn­ar verði til­bú­in 1. fe­brú­ar eins og stefnt hef­ur verið að.

„Við höf­um unnið eft­ir þeirri áætl­un að geta skilað skýrsl­unni 1. fe­brú­ar n.k. Þetta er hins veg­ar stórt og margþætt verk­efni og lokafrá­gang­ur tíma­frek­ur þannig að á þess­ari stundu get­um við ekki full­yrt ná­kvæm­lega upp á dag eða klukku­stund hvenær skýrsl­an verður birt. Í ráði er að gefa út frétta­til­kynn­ingu í síðustu viku janú­ar varðandi til­hög­un skýrslu­skila og tíma­setn­ing­ar.“

Í skýrsl­unni verður að finna tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um um­fang þeirr­ar vinnu sem unn­in hef­ur verið við rann­sókn nefnd­ar­inn­ar, rit­un skýrsl­unn­ar, svo og upp­lýs­ing­ar um það hverj­ir komu til skýrslu­töku og hvenær. Rétt yfir 140 hafa verið tekn­ir í form­lega skýrslu­töku og sum­ir oft­ar en einu sinni. Þá hef­ur verið rætt við yfir 300 manns á fund­um til viðbót­ar.

Páll sagði að í fréttaum­fjöll­un net­miðla hefði um störf nefnd­ar­inn­ar hefði ekki komið nógu skýrt fram að rann­sókn­ar­nefnd­in sinnti ekki sér­stak­lega rann­sókn saka­mála.

„Það verk­efni er í hönd­um sér­staks sak­sókn­ara og eft­ir at­vik­um Fjár­mála­eft­ir­lits­ins og annarra yf­ir­valda. Það er hins veg­ar tekið fram í lög­um um nefnd­ina að ef grun­ur vakn­ar við rann­sókn nefnd­ar­inn­ar um refsi­verða hátt­semi eða brot á starfs­skyld­um skulu nefnd­in gera hlutaðeig­andi yf­ir­völd­um grein fyr­ir því. Það hvort ein­stak­ling­ar eru kallaðir í skýrslu­töku hjá rann­sókn­ar­nefnd­inni eða ekki hef­ur því ekki þýðingu um stöðu hans með til­liti til hugs­an­legr­ar refsi­á­byrgðar. Þar við bæt­ist að í lok 14. gr. laga nr. 142/​2008 um rann­sókn­ar­nefnd­ina er tekið fram að ekki sé heim­ilt að nota upp­lýs­ing­ar sem ein­stak­ling­ur hef­ur veitt nefnd­inni sem sönn­un­ar­gagn í saka­máli sem höfðað er gegn hon­um. Rann­sókn­ar­nefnd­in hef­ur því í störf­um sín­um þurft að gæta þess að rann­sókn henn­ar verði ekki til að tak­marka mögu­leika þar til bærra yf­ir­valda til að fylgja mál­um hugs­an­lega eft­ir í far­vegi saka­mála.

Verk­efni rann­sókn­ar­nefnd­ar­inn­ar er fyrst og fremst að út­skýra stóru heild­ar­mynd­ina um aðdrag­anda og or­sak­ir falls ís­lensku bank­anna. Við það verk­efni þurf­um við aðeins að taka skýrsl­ur af ein­stak­ling­um að svo miklu leyti sem sam­tíma­heim­ild­ir s.s. bréf, fund­ar­gerðir, minn­is­blöð, skýrsl­ur, skrár, bók­hald, fylgiskjöl og önn­ur sam­tíma­gögn upp­lýsa ekki málið eða eru ekki mis­vís­andi um at­b­urði. Það hvenær ein­stak­ling­ar hafa komið á fund okk­ar hef­ur ráðist af fram­vindu rann­sókn­ar­inn­ar, hvort við höf­um t.d. nú á loka­stig­um henn­ar þurft að fá nán­ari skýr­ing­ar á ein­stök­um atriðum og einnig hef­ur það ráðist af aðstæðum viðkom­andi, m.a. ferðum er­lend­is og heilsu­fari.“

Páll sagði að nefnd­in væri núna á enda­sprett­in­um við skrif og að sinna ákveðnum þátt­um sem lög­in kveða á um, svo sem að gefa þeim sem und­ir það falla kost á að koma að at­huga­semd­um og taka sam­an upp­lýs­ing­ar um atriði sem nefnd­in kann að telja rétt að senda til rík­is­sak­sókn­ara, for­stöðumanna og hlutaðeig­andi ráðuneyta. Jafn­framt væri unnið að próf­arka­lestri á fyr­ir­liggj­andi efni og lögð drög að um­broti. Síðan ætti auðvitað eft­ir að koma skýrsl­unni í gegn­um prentvél­ar og bók­band.


mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert