Á fjórða ársfjórðungi 2009 bárust 835 umsóknir til Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluerfileika sem eru um 27% fleiri umsóknir en á þriðja ársfjórðungi. Á árinu 2009 bárust 3320 slíkar umsóknir, eða um 42% fleiri umsóknir en á árinu 2008.
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Úrræði vegna greiðsluvanda eru samningar, skuldbreyting vanskila, frestun á greiðslum, lenging lána og greiðslujöfnun.
Í árslok 2009 höfðu um 41 þúsund lán verið greiðslujöfnuð sem samsvarar til um 50% af útlánasafni sjóðsins.
Heildarútlán sjóðsins námu rétt rúmum 30 milljörðum króna á árinu 2009 samanborið við rúma 64 milljarða króna á árinu 2008 en það samsvarar 53% samdrætti milli ára.