Sally Magnusson, fréttamaður BBC í Skotlandi, hefur fengið ávítur frá yfirstjórn stofnunarinnar fyrir ummæli sem hún lét falla í lesendabréfi um Icesave-deilu Breta og Íslendinga.
Sally er dóttir hins kunna sjónvarpsmanns Magnúsar Magnússonar.
Hún er sögð bundin af reglum BBC sem banna starfsfólki að blanda sér í pólitísk málefni.
Sally skrifaði eigi að síður lesendabréf í bresku helgarblaði þar sem hún gagnrýnir bresk yfirvöld fyrir að leggja miklar klyfjar á Íslendinga með því að krefjast hárra vaxta. Spyr hún hvort ekki væri nær að krefjast þriggja eða tveggja prósenta vaxta, í stað 5,5%.
Íslendinga myndi muna mikið um það en Bretar tækju varla eftir muninum.