Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytis, segir að vitað sé um einn Íslending sem var á Haíti þegar jarðskjálftinn stóri reið yfir í gærkvöldi. Hann hafi haft samband við fjölskyldu sína og er óhultur. Hótelið sem hann var á hrundi til grunna. Ráðuneytið óskar eftir upplýsingum um fleiri Íslendinga á svæðinu.
Íslendingurinn, Halldór Elías Guðmundsson, var í för með bandarískum skólafélögum sínum en hann stundar nám í Ohio. Hann var á hóteli í bænum Jacmel á suðurströnd Haítí.
Halldór Elías heldur einnig út Twitter-síðu þar sem hann ritaði stuttan texta eftir jarðskjálftann. Sagðist hann sitja undir tré fyrir utan hótelið sem væri rústir einar.
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins kannar nú hvort Íslendingar séu á svæðinu og reynir að ná sambandi við þá. Þeir sem kunna að hafa upplýsingar um Íslendinga á Haítí eru hvattir til að hafa samband við Borgaraþjónustu ráðuneytisins í síma 545 9900.