Tvö umferðaróhöpp urðu á Fljótsdalshéraði í dag, í glæra hálku. Maður slasaðist á hendi þegar dekk veghefils sem keyrt var á fór yfir hann.
Ekið var á kyrrstaðan veghefil í morgun, á Upphéraðsvegi á leiðinni frá Egilsstöðum í Hallormsstað.
Veghefilsstjórinn var að undirbúa að aðstoða við að draga upp dælubíl sem lent hafði út af veginum. Ökumaður pallbíls sem átti leið um veginn náði ekki að stöðva bílinn vegna hálku og lenti aftan á heflinum sem var í vegkantinum.
Ökumaður dælubílsins stóð á bretti veghefilsins. Hann féll í jörðina og fékk dekk hefilsins yfir sig. Brotnaði maðurinn á hendi. Hann var fluttur á heilsugæsluna á Egilsstöðum og síðan til aðgerðar á sjúkrahús.
Ökumaður pallbílsins slapp með minniháttar meiðsli, að því talið er, en bíllinn er mikið skemmdur, ef ekki ónýtur.
Um hádegisbilið varð annað óhapp vegna hálku á svæði lögreglunnar á Egilsstöðum. Ökumaður jeppa á Borgarfjarðarvegi tók bílinn úr fjórhjóladrifinu þar sem honum sýndist hann vera kominn út úr hálkunni. Svo var ekki og snarsnerist hann á veginum og fór eina og hálfa veltu.
Ökumaður og tveir farþegar sluppu með skrámur.