Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir við Reutersfréttastofuna að vísbendingar séu um að næsta endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands, sem átti að fara fram síðar í janúar, frestist vegna Icesave-málsins.
Þá segir Gylfi einnig, að ríkisstjórnin sé langt frá því að ná fram lausn, sem feli það í sér að gerður verði nýr lánasamningur við Breta og Hollendinga og þannig verði mögulegt að hætta við þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin.
„Auðvitað reynir íslenska ríkisstjórnin allt sem hún getur til að koma í veg fyrir að endurskoðun efnahagsáætlunarinnar tefjist en ég held ég að líkurnar séu á móti okkur," hefur Reuters eftir Gylfa sem bendir á tafir sem urðu á fyrstu endurskoðun áætlunarinnar á síðasta ári vegna Icesave-málsins.
„Og því miður eru vísbendingar um að eitthvað því líkt kunni að endurtaka sig nú."
Gylfi sagði, að tafir á lánafyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gætu haft áhrif áa fjárfestingar og gætu kallað á frekari niðurskurð ríkisútgjalda.