Lögð af stað til Haíti

Alþjóðabjörgunarsveitin skömmu fyrir brottför.
Alþjóðabjörgunarsveitin skömmu fyrir brottför. Ljósmynd/Landsbjörg

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er lögð af stað til Haíti til björgunarstarfa. Flugvél Icelandair fór í loftið kl. 11 og er förinni heitið til Boston og þaðan til Haíti.  Íslenska sveitin verður á meðal fyrstu alþjóðlegra björgunarsveita á staðinn og er það þakkað snörum viðbrögðum utanríkisráðuneytisins.

Alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar var stofnuð árið 1999 með samkomulagi milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar, utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Alþjóðasveitin er á viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar. Sveitin fór í sitt fyrsta útkall árið 1999 þegar að hún fór til Tyrklands í kjölfar jarðskjálftanna sem urðu þar en þá létust meira en 18 þúsund manns.

Árið 2003 fór sveitin til Alsír í kjölfar jarðskjálfta og í byrjun árs 2004 var farið til Marokkó. Auk þess fóru fjórir félagar úr ÍA í sjúkraflug til Tælands í byrjun árs 2005 eftir flóðin í Indónesíu. Sveitin var sett í viðbragðsstöðu  eftir hryðjuverkaárásirnar í  Bandaríkjunum og fellibylinn Katrínu og einnig þegar jarðskjálftar urðu í Pakistan 2006 og í Kína 2008.

Sveitin er aðallega byggð upp sem rústabjörgunarsveit en Slysavarnafélagið Landsbjörg er aðili að INSARAG (International Search and Rescue Advisory Group) sem eru regnhlífasamtök alþjóða rústabjörgunarsveita sem starfa innan Sameinuðu þjóðanna. Sveitin hefur aðsetur í húsnæði á Keflavíkurflugvelli og er  grunnbúnaður hennar geymdur þar.

Þær einingar sem standa að sveitinni í dag eru Björgunarsveitin Ársæll, Hjálparsveit skáta Kópavogi, Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Björgunarsveitin Suðurnes. Einnig koma að henni Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Landspítalinn. Í sveitinni eru björgunarmenn sem hafa sérhæft sig í rústabjörgun, læknar, bráðatæknar, sérfræðingar í eiturefnum, fyrstuhjálpar- og fjarskiptamenn.

Búnaður sveitarinnar vegur allt að 14 tonnum en umfang hans fer eftir þeim verkefnum sem sveitin er að fara í hverju sinni. Gert er ráð fyrir að sveitin geti starfað án utankomandi aðstoðar í 10 daga.

Þann 12. september sl. hlaut Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin formlega vottun sem fullgild alþjóðleg rústabjörgunarsveit frá INSARAG. Var hún meðal fyrstu sveita í heiminum til að hljóta slíka vottun.

Umsögnin sem sveitin hlaut frá úttektarteyminu að æfingu lokinni var afar góð. Þar sagði m.a. að sveitin hafi sýnt mikla fagmennsku í öllum verkum sem leiddi til góðrar frammistöðu. Einnig var tekið eftir afar öguðum vinnubrögðum og góðum anda innan hennar.

Fyrirkomulag starfsemi sveitarinnar gerir það að verkum að hægt er að bjóða uppá fjölbreytta aðstoð á hamfarasvæðum erlendis. Búðirnar, fjarskiptin, flutningur og stjórnun sveitarinnar er með sama hætti  hvort sem um er að ræða rústabjörgun, vatnshreinsun, uppsetningu á flóttamannabúðum, sjúkrahjálp, flóð eða önnur verkefni sem íslensk stjórnvöld vilja leggja til lið hverju sinni. 

Alþjóðabjörgunarsveitin undirbýr sig.
Alþjóðabjörgunarsveitin undirbýr sig. Ljósmynd/Landsbjörg
Alþjóðabjörgunarsveitin.
Alþjóðabjörgunarsveitin. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert