Rauði krossinn með símasöfnun vegna jarðskjálftans

Rauði kross Íslands hefur ákveðið að hefja símsöfnun vegna jarðskjálftans á Haíti. Óttast er að þúsundir manna hafi farist í jarðskjálftanum sem reið yfir Haítí í gærkvöldi, og að tugþúsundir fjölskyldna þurfi á tafarlausri neyðaraðstoð að halda.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Haítí hafa unnið sleitulaust síðan í gærkvöldi að björgun og við að aðstoða sjúkrahús á hamfarasvæðinu við umönnun slasaðra, að því er segir í tilkynningu.

Brýnast er að bjarga fólki úr rústum, uppsetning bráðabirgða sjúkraskýla og að koma fólki sem fyrst í öruggt skjól. Alþjóðlegt teymi sérfræðinga frá Rauða krossinum mun koma til Haítí í dag til að veita aðstoð á hamfarasvæðunum.

„Reynslan sýnir að fyrstu aðgerðir Rauða krossins í jarðskjálftum sem þessum eru að veita fólki skjól, mat og hreint vatn, auk læknisaðstoðar og sálræns stuðnings,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, í tilkynningu.

Alþjóða Rauði krossinn mun senda út neyðarbeiðni seinna í dag, og hefur Rauði kross Íslands þegar boðið fram vana sendifulltrúa í neyðarviðbrögðum ef þörf reynist. Rauða kross félög í Karabíska hafinu hafa öflugt net sjálfboðaliða á svæðinu, sem þjálfaðir eru í neyðarviðbrögðum og geta brugðist tafarlaust við þegar hamfarir verða í nágrannaríkjum.

Rauði kross Íslands hefur opnað fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500 vegna jarðskjálftans. Þegar hringt er í númerið dragast 1.500 kr. frá næsta símreikningi.

Frá Haíti
Frá Haíti Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert