Segir forstjóra Bankasýslunnar vera kúlulánadrottningu

Gunnar I. Birgisson.
Gunnar I. Birgisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, kallar Elínu Jónsdóttur, forstjóra Bankasýslu ríkisins, Kúlulánadrottningu Steingríms J. í fyrirsögn á pistli sem hann ritar á vef Pressunnar. Hann segir ráðningu hennar vekja undrun en hún var skipaður tilsjónarmaður Lífeyrissjóðs starsfamanna Kópavogs á síðasta ári.

„Hún vekur undrun, síðasta ráðning vinstri stjórnarinnar í mikilvæg embætti, þ.e. ráðning Elínar Jónsdóttur í stöðu forstjóra Bankasýslu ríkisins.

Elín er greinilega í miklu uppáhaldi hjá fjármálaráðherranum. Hann lét skipa hana sem tilsjónarmann þegar ráðuneyti hans tók yfir Lífeyrissjóð starfsmanna Kópavogsbæjar vegna þess að við, sem sátum í sjóðsstjórninni, vildum ekki tefla fjármunum sjóðsfélaga í tvísýnu í miðju efnahagshruni. Við björguðum fjármunum sjóðsins og tókst vel til.

Óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjulegar aðgerðir. Það hefði verið óráð að geyma peningana í bönkunum eins og ástatt var. Þá hefði mátt gagnrýna stjórnina fyrir að taka óþarfa áhættu. Við geymdum þá í staðinn í öruggu skjóli bæjarsjóðs. Það var ekki bannað heldur er talið að lánveitingin hafi hugsanlega verið umfram hámark sem ákveðið var í útrásaræðinu.

Tilsjónarmaðurinn gerði ekki miklar rósir á skrifstofu Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar utan lélegar mætingar og ólund. Þá rak hún framkvæmdastjóra sjóðsins, sem ekkert hafði til saka unnið, nema að skrifa bréf í umboði stjórnar. Þetta mál er líka óskiljanlegt í ljósi þess að Kópavogsbær ber 100% ábyrgð á lífeyrissjóðnum.

Í fjölmiðlum undanfarið hafa komið fram þær fréttir að Elín þessi stundaði hlutabréfabrask og fékk til þess lánað fé, svonefnt kúlulán á annað hundrað milljónir króna, hjá bönkunum fyrir hrun. Þegar syrti í álinn og braskið gekk ekki upp, þá seldi hún fyrirtækið með einskis verðum hlutabréfum en kúlulánið stóð eftir ógreitt!

Löglegt en siðlaust – eða hvað?

Af þessum sökum er tilsjónarmaðurinn góði, yfirmaður Bankasýslunnar og sérlegur eftirlitsmaður fjármálaráðherra með bankaviðskiptum í landinu kölluð kúlulánadrottningin.

Siðaumvandanir vinstri manna eiga alltaf við alla aðra en þá sjálfa," segir í pistli fyrrum bæjarstjóra Kópavogs. 

Hér er vefur Gunnars á Pressunni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka