Stjórnarliðar buðu til samráðs

Frá fundi framsóknarmanna á Hótel Borg í dag.
Frá fundi framsóknarmanna á Hótel Borg í dag. Heiðar Kristjánsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á hádegisfundi með flokksfélögum sínum á Hótel Borg í dag að fljótlega eftir að ákvörðun forseta Íslands lá fyrir, um að staðfesta ekki lögin um Icesave, hefðu stjórnarþingmenn haft samband við stjórnarandstöðuna og kannað hvort enn stæði tilboð hennar um samráð. Þar hefði hugur ekki fylgt máli.

Síðan hefði verið haft samband við sig og Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokks, af Fréttablaðinu og þeir spurðir út í þetta. Í blaðinu daginn eftir hefði verið gefið í skyn á forsíðu að stjórnarandstaðan vildi ekki þjóðaratkvæðagreiðslu „Við tók spuni hjá ríkisstjórninni um að við þyrðum ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu og vissum ekki hvað við vildum. Þetta þótti mér illa gert, sérstaklega í ljósi þess að þeir nálguðust okkur að fyrra bragði til að kanna hvort við værum ekki til í það áfram að ræða málin," sagði Sigmundur Davíð.

Sigmundur Davíð sagði framsóknarmenn hafa staðið við þær yfirlýsingar um að þeir vildu ekki nota niðurstöðuna í Icesave-málinu til að knýja á um að ríkisstjórnin færi frá. „Ég veit að það mæltist vel fyrir í ákveðnum hópi hjá Vinstri grænum því það var alltaf notað á þau að hjá stjórnarandstöðunni snerist þetta bara um að koma höggi á ríkisstjórnina. Það var mikilvægt fyrir þau að geta vísað í það að a.m.k. Framsóknarflokkurinn ætlaði ekki að nota þetta í þeim tilgangi, og við það höfum við staðið," sagði Sigmundur og benti á að samdægurs og forsetinn synjaði lögunum staðfestingar hefði hann hefði ítrekað verið spurður hvort þessi niðurstaða þýddi ekki að ríkisstjórnin þyrfti að fara frá. ,,Ég taldi svo ekki vera og rifjaði upp að við hefðum heitið stjórninni stuðningi við að leysa úr málinu ef þetta félli svona eins og það gerði. Við munum áfram ítreka og benda á að auðvitað eigi þjóðaratkvæðagreiðslan ekki að snúast um líf stjórnarinnar."

„Er þingmaðurinn veikur?“

Sigmundur sagði að þegar Alþingi kom saman sl föstudag til að ræða þjóðaratkvæðagreiðsluna hefði hann verið „sérlega ljúfur“ í ræðuhöldum gagnvart ríkisstjórninni. Að einni ræðu lokinni hefði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem þá sat í stóli forseta, komið til sín og sagt: „Ég var nú að hugsa um að slá í bjölluna og spyrja: Er þingmaðurinn veikur?"

Á fundinum á Hótel Borg tóku Sigmundur Davíð og Vigdís Hauksdóttir við fyrirspurnum frá flokksfélögum. Meðal þeirra sem tók til máls var Sigmar B. Hauksson. Hann varaði við því að Joscka Fischer, fv. ráðherra í Þýskalandi, yrði fenginn sem sáttasemjari í deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga. Hann væri of róttækur og ekki sérlega vel liðinn meðal miðflokka í Evrópu. Stakk Sigmar upp á að frekar yrði leitað til Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, um að miðla málum.

Á fundi framsóknarmanna komu einnig upp vangaveltur um það af hverju Baugi og Fréttablaðinu væri svona mikið í nöp við Framsóknarflokkinn. Undir þetta tók Sigmundur Davíð, en sagðist ekki hafa svör á reiðum höndum. „Ég skil bara ekki þá framsóknarmenn sem versla í Bónus," sagði einn framsóknarmanna á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert