Ekki hlustað á framsóknarmenn

Frá fundi framsóknarmanna í dag.
Frá fundi framsóknarmanna í dag. mbl.is/Heiddi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á hádegisfundi með félögum sínum í Reykjavík, sem haldinn var á Hótel Borg, að því miður hefði það komið á daginn varðandi Icesave sem Framsóknarflokkurinn varaði við. Á framsóknarmenn hefði ekki verið hlustað, því miður.

„Við höfum á öllum stigum málsins lagt til að komið yrði á fót samráðsvettvangi, þar sem allir flokkar kæmnu að borðinu. Við lögðum til 30. desember að myndaður yrði slíkur hópur, með aðkomu allra flokka, sem myndi ráða til sín fagmenn við gerð svona samninga. Það var slegið útaf borðinu og málið sett í atkvæðagreiðslu. Stjórnin gat ekki klárað þetta og við vitum hvað gerst hefur síðan, viðbrögðin hafa verið ákveðinn kapítuli útaf fyrir sig," sagði Sigmundur.

Sigmundur sagði framsóknarmenn hafa kynnt mikilvægi þess að kynna málstaðinn útá við.

„Það hefur komið á daginn að við höfum verið sjálfum okkur samkvæm og haft rétt fyrir okkur. Tæknileg atriði málsins hafa reynst rétt, eins og við héldum fram. Ánægjulegt að þingflokkur okkar hafði rétt fyrir sér, og varað við, en það skilaði sér því miður ekki. Málið sýnir líka galla á stjórnmálum á Íslandi, rökræðan nær ekki vel í gegn í fjölmiðlum. Fréttirnar snúast um hvað menn tala lengi, að það sé verið að tala og þrefa. Fyrir vikið er stór hluti landsmanna ókunnugur málinu," sagði Sigmundur.

Sigmundur sagði að í dag væru að koma fram ýmsar upplýsingar í fjölmiðlum sem nýjar fréttir væru, en framsóknarmenn hefðu bent á margt af þessu fyrir ári síðan. Tók hann sem dæmi skýrslu franska seðlabankans um ábyrgðir ríkja á skuldbindingum sínum.

 Vilja ekki þiggja utanaðkomandi aðstoð

Sigmundur sagði það ennfremur vera óhæfu hvernig ríkisstjórnin brygðist við málflutningi erlendra sérfræðinga og stjórnmálamanna. Reynt væri að gera lítið úr þessum einstaklingum og málflutningi þeirra. Ótrúlegt væri td að lesa blogg stjórnarþingmanna, sem litu á málið sem einhverja keppni og vildu ekki þiggja utanaðkomandi aðstoð, jafnvel þótt hagsmunir þjóðarinnar væru í húfi.

Fram kom hjá Sigmundi að seinna í dag yrði fundað milli stjórnarinnar og stjórnarandstöðuflokkanna.

Vigdís Hauksdóttir sagði þingmenn Framsóknarflokksins ekki hafa verið skotgröfum í umræðunni um Icesave heldur fyrst og fremst verið að verja rétt íslensku þjóðarinnar og benda á það órétti sem hún hefði orðið fyrir.

„Auðvitað var þetta hörð umræða en ríkisstjórnin kom með spuna um að við værum orðljót og ekki málefnileg. Ég fullyrði að við vorum málefnaleg alla leið gegnum umræðuna á þingi. Sem betur fer erum við með þann öryggisventil að forsetinn geti gripið inn í hjá framkvæmdavaldinu. Stundum er sagt að þetta vald eigi að vera hjá þjóðinni, en þetta er okkar stjórnskipum í dag. Sem betur fer okkar allra vegna greip forsetinn til þessa ráðs," sagði Vigdís m.a.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ávarpar framsóknarmenn í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ávarpar framsóknarmenn í dag. mbl.is/Heiddi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert