17 km langur trefill gegnum göng

Fríða Gylfadóttir listakona situr með prjónana.
Fríða Gylfadóttir listakona situr með prjónana. Siglo.is

Íbúar á öllum aldri á  Siglufirði og í Ólafsfirði, keppast nú við að prjóna 17 km langan trefil. Samkvæmt upplýsingum frá Fjallabyggð er að nýta trefillinn til að tengja saman byggðarkjarnana alveg frá miðbæ Siglufjarðar í gegnum Héðinsfjarðargöng inn í miðbæ Ólafsfjarðar við vígslu gangana í lok september nk. þegar göngin verða formlega opnuð.
 
„Ég vona að tíminn reynist nægur,“ segir Fríða Gylfadóttir listamaður á Siglufirði, sem á hugmyndina að treflinum. Aðspurð segir hún viðtökur hafa verið góðar, en á þeim tveimur dögum sem liðnar eru frá því að hugmyndin kom fram hafa ríflega 40 manns af báðum kynjum og á öllum aldri skráð sig í prjónaskapinn auk þess styrktaraðilar hafa haft samband og boðist til þess að fjármagna kaup á garni. Einnig hefur Ístex, sem framleiðir handprjónaband úr íslenskri ull, boðið góðan afslátt af sínum vörum. „Þeir hjá Ístex hafa raunar reiknað það út að til þess að prjóna 17 km þarf 350-400 kg af garni,“ segir Fríða.

Að sögn Fríðu er hugmyndin að setja upp körfur með prjóna og garni á helstu samkomustöðum sveitarfélagsins ásamt dagbók. „Þannig getur fólk notað tímann þegar það er að bíða í biðröð í bakaríinu, apótekinu eða hjá tannlækninum til að prjóna og síðan kvittað fyrir handtakið í sérstakri dagbók,“ segir Fríða og tekur fram að sér finnist mikilvægt að safna saman nöfnum allra þeirra sem koma að verkefninu.

Fríða tekur fram að öllum Íslendingum sé velkomið að taka þátt í verkefninu, annað hvort með því að senda prjónabúta eða garn á skrifstofu annað hvort á Gránugötu 24, 580 Siglufirði eða á Ólafsveg 4, 625 Ólafsfirði. Segir hún bútana og garnið mega vera í öllum litum og prjónamunstrum, eina skilyrðið sé til bútarnir þurfa að vera 20 cm breiðir því bútarnir verða saumarnir saman.

Spurð hvað gert verði við trefilinn þegar vígslu ganganna sé lokið segir Fríða hugmyndina að klippa trefilinn niður í minni trefla og þvo þá áður en merki Fjallabyggðar verði saumað í þá og þeir seldir til styrktar góðgerðarmála. Þeir sem eru áhugasamir um verkefnið geta haft samband við Fríðu í síma: 896-8686.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka