Áætlun AGS afar þýðingarmikil

Dominique Strauss-Kahn.
Dominique Strauss-Kahn. Reuters

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra hefur í dag tilkynnt Dominique Strauss Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bréflega að af hálfu íslenskra stjórnvalda sé lögð áhersla á að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haldi hindrunarlaust áfram enda þótt fyrirsjáanlegt sé að lausn Icesave-málsins muni tefjast vegna fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í bréfi Jóhönnu segir, að íslenska ríkisstjórnin og Alþingi hafi  fyrir sitt leyti staðið við sitt við að framfylgja samningnum um Icesave-skuldbindingarnar, sem gerður var við Breta og Hollendinga í júní og endurskoðaður í október.

Þá kemur fram að endurskoðun efnahagsáætlunarinnar sé einn af mikilvægustu þáttum í endurreisn íslensks efnahagslífs. Því sé afar þýðingarmikið að endurskoðunin eigi sér stað svo fljótt sem kostur er, ekki síst til þess að tryggja fjárfestingar og uppbyggingu atvinnulífs í þeirri endurreisn sem hafin er á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert