Arðbærar fjárfestingar forsenda fyrir efnahagsbata

Unnið að framkvæmdum við kerskála væntanlegs álvers í Helguvík.
Unnið að framkvæmdum við kerskála væntanlegs álvers í Helguvík. mbl.is/RAX

Samtök atvinnulífsins (SA) segja, að brýnasta verkefnið í efnahagsmálum þjóðarinnar sé að stuðla að því að störfum taki að fjölga á nýjan leik. Það gerist ekki nema með arðbærum fjárfestingum, einkum í útflutningsstarfsemi og það sé jafnframt forsenda þess að lífskjör geti batnað á nýjan leik.

Í nýrri greiningu SA á íslenskum vinnumarkaði kemur fram, að efnahagslegur stöðugleiki, með lágri verðbólgu og vöxtum, sé einnig mikilvæg forsenda fyrir jákvæðri þróun á vinnumarkaði því að við slíkar aðstæður verði fjárfestingar, framkvæmdavilji og fjölgun starfa meiri en ella. 

Skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun var heldur minna á árinu 2009 en búist hafði verið við fyrirfram, en það var 8% eða sem svarar til rúmlega 13.000 fullra starfa. SA segja útlit fyrir, að þær góðu fregnir séu skammgóður vermir þar sem botn efnahagslægðarinnar náist síðar en ráð var fyrir gert.  Opinberar spár standi til þess að atvinnuleysi  muni aukast í 10-11% á þessu ári, verði 9-10% árið 2011 og fari minnkandi eftir það. Sú þróun sé þó háð því að áformuð fjárfestingarverkefni í iðnaði, netþjónabúum og orkumannvirkjum gangi eftir og að fjárfestingarumhverfið verði hagstætt og hvetjandi fyrir nýsköpun og framtak.

Fram kemur hjá SA, að samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar hafi störfum fækkað um 11.000 milli áranna 2008 og 2009, eða úr tæplega 179 þúsund í 168 þúsund. Meðalvinnutími styttist einnig umtalsvert, um tæpar tvær stundir á viku. Vinnustundum fækkaði því úr 7,4 milljónum í 6,7 eða um 10,5%. Fækkun heildarvinnumagns í efnahagslífinu sé glöggur mælikvarði um minni verðmætasköpun af völdum efnahagskreppunnar og í bráð sé brýnasta viðfangsefnið að þessi þróun gangi sem fyrst til baka.

Heimasíða Samtaka atvinnulífsins


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert