Bretar og Hollendingar ættu að hætta sjálfbirgingslegu einelti sínu samstundis," skrifar Martin Wolf, dálkahöfundur dagblaðsins Financial Times, í grein, sem birtist á vefsíðu blaðsins í kvöld. Hann leggur til að stjórnvöld þessara ríkja afskrifi skuldina vegna Icesave og yfirtaki í staðinn eignir Landsbankans.
Máli sínu til stuðnings bendir hann á málflutning breskra stjórnvalda um að þau setji Íslendingum ekki íþyngjandi skilyrði vegna þess að eignir Landsbankans muni væntanlega duga fyrir endurgreiðslu á 90% upphæðarinnar.
„Slík framkoma sýndi örlæti," skrifar Wolf. „Hún myndi líka gera mikið til að hleypa krafti í hrjáð og viðkvæmt lítið land. Að hóta slíku landi með eyðileggingu, eins og Myners lávarður [bankamálaráðherra] hefur gert, er einfaldlega skammarlegt."
Wolf segir að lykilspurningin sé hvort kröfur Breta og Hollendinga séu sanngjarnar. „Þegar öllu er á botninn hvolft er það viðurkennt í öllum siðmenntuðum löndum að til eru takmörk fyrir því hvað langt má ganga í innheimtu skulda. Þess vegna innleiddum við takmarkaða ábyrgð og afnámum skuldafangelsi. Að fara fram á að þjóð yfirfæri sem nemur helmingi þjóðarframleiðslu auk vaxta með hagstæðum vöruskiptum er einfaldlega sligandi."
Wolf bendir á að alls krefjist Bretar og Hollendingar 3,9 milljarða evra, sem jafngildi því að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, fengi kröfu upp á 700 milljarða punda: „Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu langt hann kæmist legði hann til að Bretar ættu að fallast á slíka skuld til að endurgreiða innistæðueigendum erlendra útibúa gjaldþrota breskra banka."