Bandaríska fréttaveitan Bloomberg hefur eftir Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í dag að íslenska efnahagslífið muni ekki hljóta af því skaða þótt Íslendingar hafni Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu því þá taki á ný gildi lög um samning, sem gerður var við Breta og Hollendinga sl. sumar.
Ólafur Ragnar er nú í Delhi á Indlandi þar sem hann tók í dag við Nehru verðlaununum fyrir starf sitt við að stuðla að auknum skilningi á alþjóðavettvangi.
Fyrri Icesave-samningarnir voru gerðir við Breta og Hollendinga í júní. Alþingi samþykkti síðan að veita ríkisábyrgð fyrir skuldbindingum samkvæmt þeim samningnum en Bretar og Hollendingar höfnuðu þeim fyrirvörum, sem Alþingi setti. Þá var sest að nýju við samningaborðið og nýr samningur gerður í október. Alþingi samþykkti að nýju lög um ríkisábyrgð kvöldið fyrir gamlársdag en Ólafur Ragnar synjaði þeim lögum staðfestingar.
Bloomberg hefur eftir Einari Karli Haraldssyni, blaðafulltrúa forsætisráðuneytisins, að þar sem Bretar og Hollendingar neituðu að fallast á fyrirvara Alþingis þá verði ekkert samkomulag í gildi ef Íslendingar fella Icesave-lögin.
Ólafur Ragnar segist hafa ákveðið að synja lögunum staðfestingar svo íslenska þjóðin geti tekið lokaákvörðun í málinu. „Þettta er eðlilegur framgangsmáti í evrópsku stjórnkerfi."
Bloomberg hefur eftir talsmanni breska fjármálaráðuneytisins að bresk stjórnvöld séu í samskiptum við hollensk stjórnvöld og Evrópusambandið til að samræma viðbrögð í Icesave-málinu.