Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin vinnur nú að sínu fyrsta rústabjörgunarverkefni á Haíti. Tveir hópar sveitarinnar leita í rústum fjögurra hæða húss í Port au Prince. Talið er að þrír séu á lífi í rústunum en um verslunarmiðstöð er að ræða.
Búðahópur vinnur hörðum höndum við að reisa búðir á flugvallasvæðinu og verða þær sameiginlegar með belgískri björgunarsveit, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
Einnig er unnið að því að koma fjarskiptum og öðrum búnaði í gang. Skortur á eldsneyti hefur skapað einhver vandkvæði en búið er að leysa þau mál. Önnur aðföng hafa reynst erfiðari, t.d. vantar sveitina timbur til stýfinga, gas og súrefni.
Auk íslensku sveitarinnar hefur sú bandaríska einnig hafið eiginleg björgunarstörf á skaðasvæðinu en enn sem komið er eru aðeins þrjár aðrar sveitir komnar á staðinn, þ.e. sú bandaríska, belgíska og sveit frá Kína.