Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin sneri aftur á flugvöllinn í Haíti eftir að hafa farið um höfuðborgina, Port au Prince, og skoðað aðstæður. Eymd og örvænting blasti við björgunarsveitarmönnum sem eiga enn eftir að ná heildarsýn yfir aðstæður. Þeir hvílast nú en halda áfram starfi sínu í birtingu.
Ingólfur Haraldsson hjá Landsbjörgu ræddi við liðsmenn sveitarinnar um fimmleytið í nótt. Hann segir að til hafi staðið að reisa bækistöðvar í borginni en erfiðlega hafi gengið að finna öruggan stað. Því hafi verið ákveðið að halda aftur út á flugvöll til hvíldar. Unnið er náið með öðrum björgunarsveitum sem eru í sömu stöðu og haldast við á flugvellinum.
Erfitt hafi verið að meta aðstæður í myrkrinu en ljóst að verkefnið er gríðarlega umfangsmikið. Ástandið er jafnvel verra en menn óttuðust. Þegar í birtingu verður hafist handa við björgunar- og leitarstarf.
Tugir þúsunda eru taldir af eftir jarðskjálftann sem skók Haíti á þriðjudagskvöld. Lík liggja líkt og hráviði víðs vegar um höfuðborgina og slasaðir kalla á hjálp úr rústum húsa. Íbúar hafast við í tjöldum undir trjám þar sem ekki þykir óhætt að dvelja í þeim húsum sem þó eftir standa. Skortur er á vatni, mat og raunar öllum nauðsynjavörum.