Fátt bendir til þess að vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar fari af stað á næstunni. Stjórnarflokkarnir hafa markað þá stefnu að fela stjórnlagaþingi að vinna að tillögum um endurskoðun stjórnarskrárinnar, en ólíklegt er talið að frumvarp um stjórnlagaþing verði samþykkt á Alþingi fyrir vorið. Almenn samstaða er hins vegar um að þörf sé á að endurskoða stjórnarskrána.
Á árunum 2005-2007 var gerð alvarleg tilraun til að endurskoða stjórnarskrána. Nefnd fulltrúa allra flokka vann að málinu ásamt hópi sérfræðinga. Nefndin stóð fyrir ráðstefnum, opnaði heimasíðu og leitaði eftir umsögnum samtaka og einstaklinga.
Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem var formaður nefndarinnar, segir að þegar á reyndi hafi komið í ljós að ekki hefði verið lag hjá stærstu stjórnmálaflokkunum að ganga til samkomulags um breytingar. Spenna hafi einkennt umræður um málskotsrétt forsetans og sömuleiðis um skipan hæstaréttardómara.
Jón sagði að sjálfstæðismenn hefðu viljað einbeita sér að kaflanum um forsetann og láta breytingar á honum ganga fyrir. Samfylkingin hefði verið ófáanleg til þess. Samfylkingin hefði haft mestan áhuga á dómstólakaflanum og auðlindaákvæðinu, en mikið hefði borið á milli flokksins og Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum.
Jón sagði að í upphafi starfs nefndarinnar hefði Samfylkingin krafist þess að stjórnarskráin öll yrði endurskoðuð. Nefndin hefði gengið út frá þessu í vinnu sinni, en þegar ljóst var að ekki yrði hægt að ná samkomulagi um alla þætti málsins hefði hann kannað hvort hægt væri að ná samstöðu um endurskoðun á vissum köflum. Sjálfstæðismenn hefðu þá lýst því yfir að þeir væru ekki tilbúnir í „bútasaum“ á stjórnarskránni.
Sjálfstæðismenn hafa lýst efasemdum um hugmyndina um stjórnlagaþing. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, segist ekki sjá að nein alvara sé á bak við hugmyndir stjórnarflokkanna um stjórnlagaþing. Hún bendir á að kostnaður við þingið sé áætlaður 300-500 milljónir króna, en engin fjárveiting sé ætluð til þingsins á fjárlögum þessa árs þó að frumvarpið geri ráð fyrir að stjórnlagaþingið taki til starfa á þessu ári.