Íslensk hönnun í klóm þjófa

Stuldur bandarískra framleiðenda á skegghúfu Víkur Prjónsdóttur er ekkert einsdæmi því fleiri íslenskir hönnuðir hafa orðið fyrir barðinu á erlendum hönnunarþjófum.

Mbl.is sagði frá því í gær að eftirlíking af skegghúfu Víkur Prjónsdóttir er nú til sölu í gegn um bandarísku vefsíðuna beardhead.com. Erlendir framleiðendur virðast telja íslenska hönnun arðbæra því svipaða sögu hefur Thelma Björk Jónsdóttir að segja. Í hennar tilfelli var það hins vegar alþjóðlega verslunarkeðjan Top shop sem stal hugmynd hennar að grænum kaðlahatti á hárspöng. Hún uppgötvaði stuldinn þegar hún var að skoða bloggsíður erlendra stílista og segist hafa verið orðlaus í nokkra daga.

Top shop notaði hattspöngina meðal annars í auglýsingum út um allan heim en eftir nokkrar bréfaskriftir varð niðurstaðan sú að hatturinn var tekinn úr sölu. Thelma fékk engar fébætur fyrir tiltæki verslunarkeðjunnar en var hins vegar boðið að hanna einhvern hlut fyrir fyrirtækið, sem hótaði henni lögsókn í einu bréfi en viðurkenndi stuldinn í öðru.

Hrafnkell Birgisson, hönnuður í Danmörku, hefur einnig orðið fyrir barðinu á stórfyrirtæki, en eftirlíking af hábolla hans var tekin til framleiðslu hjá stórri bandarískri hönnunarkeðju, Urban Outfitters.

Hann segir að í raun hafi útfærsla þjófanna á hugmynd hans ekki verið nema svipur hjá sjón því þar sem bollinn var fjöldaframleiddur skorti hann þá endalausu fjölbreytni, sem er eitt helsta einkenni hábolla Hrafnkels.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert