Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir í grein sem hún ritar í EUobserver að Ísland muni standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.
Jóhanna segir í greininni að hún hafi rætt við forsætisráðherra Bretlands, Hollands, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og Danmerkur og þeir hafi allir sýnt fullan skilning á stöðu mála á Íslandi.
Hún segir að skoðanakannanir sýni að meirihluti Íslendinga sé ósáttur við Icesave-samninginn við Breta og Hollendinga og vilji að samið verði um betri kjör.
Jóhanna lýsir í greininni erfiðri fjárhagsstöðu ríkissjóðs og skiljanlegri reiði almennings á því að bankarnir sem voru einkavæddir á sínum tíma hafi fengið heimild til þess að reka áhættusama starfsemi erlendis án þess að eftirlitsaðilar á Íslandi, Bretlandi og Hollandi hafi gert eitthvað til þess að verja almenning fyrir slíkri alvarlegu áhættu.
Hún segir að galla sé að finna á evrópsku tilskipuninni hvað varðar innistæðutryggingar þar sem ekki er gert ráð fyrir þeim möguleika að heilu bankakerfin hrynji. Þrátt fyrir allar þessar lögmætu áhyggjur þá gera Íslendingar sér grein fyrir mikilvægi þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins.