Kynnti möguleika til kvikmyndagerðar á Íslandi

Ólafur Ragnar og Dorrit skoða tölvuver í skóla í Mumbai.
Ólafur Ragnar og Dorrit skoða tölvuver í skóla í Mumbai. mbl.is

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók í gær þátt í kynningu á möguleikum til kvikmyndagerðar á Íslandi. Indverjar hafa í vaxandi mæli gert kvikmyndir í öðrum löndum og sóttu kynninguna fjölmargir áhrifamenn úr indverskum kvikmyndariðnaði.

Einar Hansen Tómasson, framkvæmdastjóri Film Iceland, kynnti m.a. þau tækifæri sem erlendum kvikmyndagerðarmönnum standa til boða á Íslandi og þá þekkingu sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa yfir að ráða. Kynningin var fjölmenn og sátu hana m.a. kvikmyndaleikstjórar og framleiðendur.

Vilji til samvinnu

Í viðræðum við forsætisráðherra Indlands Manmohan Singh, utanríkisráðherrann S. M. Krishna og aðra ráðamenn að lokinni hátíðarmóttöku í Delí kom fram eindreginn vilji indverskra ráðherra til að efla samvinnu við Íslendinga, kanna möguleika á sameiginlegum verkefnum, fjárfestingum og vísindarannsóknum. Indverjar mætu mikils vináttu við Íslendinga og teldu mikilvægt að þjóðin næði sem fyrst sínum fyrri styrk.

Á fundi forseta með Manmohan Singh forsætisráðherra var rætt um reynslu Íslendinga af fjármálakreppunni og viðbrögð þjóðarinnar við henni, sóknarfæri í orkumálum, vísindum og tækni. Hann lýsti miklum áhuga á samvinnu við Íslendinga á sviði jarðhita auk þess sem honum þótti uppbygging gagnavera á Íslandi áhugaverð. Þá nefndi forsætisráðherrann áhuga Indverja á því að skoða Keflavíkurflugvöll sem samgöngumiðstöð varðandi flutning á fólki og vörum til Evrópu og Vesturheims.

Ólafur Ragnar ræddi einnig um framlag íslenskra jöklafræðinga og jarðvísindamanna til rannsókna á Himalayasvæðinu og mikilvægi slíkra rannsókna fyrir athuganir á loftslagsbreytingum, vatnsbúskap og fæðuöflun Indverja, Kínverja og fleiri þjóða á vatnasvæði Himalayafjalla.

Í dag mun Ólafur taka við Nehru verðlaununum og sitja hátíðarkvöldverð sem forseti Indlands heldur forsetahjónunum til heiðurs.

Frásögn af ferðalagi forseta Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert