HÁTT í 60 manns mættu á kynningarfund sem haldinn var vegna forvals í hugmyndasamkeppni um nýjan Landspítala í gær.
Má því gera ráð fyrir að margir hafi áhuga á því að taka þátt en skila þarf inn umsókn um þátttöku fyrir 15. febrúar.
Í forvali eru gerðar ákveðnar lágmarkskröfur sem þarf að uppfylla. Þeim fimm teymum sem fá hæsta stigagjöf í forkeppninni býðst að taka þátt í hönnunarkeppninni sjálfri. Að sögn Ingólfs Þórissonar, formanns forvalsnefndar, er gert ráð fyrir að dómnefnd tilkynni um vinningstillögu að nýjum Landspítala í júlí.
Þá verður samið við það hönnuðateymi sem hlutskarpast verður um að vinna frumhönnun spítalans og gera útboðsgögn fyrir einkaframkvæmdarútboð. „Svo við erum bæði að leita að góðri hugmynd og góðum hönnuðum til að vinna með okkur áfram," segir Ingólfur.