Fundur fulltrúa allra þingflokka hófst í Stjórnarráðinu í kvöld en þar á að ræða stöðuna í Icesave-málinu. Reiknað er með að m.a. verði rætt um aðkomu sáttasemjara að deilunni milli Íslendinga, Breta og Hollendinga.
Formenn flokkanna á Alþingi komu síðast saman til fundar á mánudag, án þess að einhver niðurstaða fengist þá. Síðan hafa talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna rætt sín á milli, en þeir gera m.a. þá kröfu að ríkisstjórnin viðurkenni að semja þurfi um ný samningsmarkmið og fá utanaðkomandi aðila til að leita sátta.
Fundinn sitja Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, Birgitta Jónsdóttir, formaður þinghóps Hreyfingarinnar og Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður.