„Við vitum að þetta er rétt byrjunin. [...] Þetta eru stærstu viðbrögð sem við erum að taka þátt í sem alþjóðleg hreyfing frá flóðbylgjunni [við Indlandshaf árið 2004],“ segir Sólveig Ólafsdóttir, sviðsstjóri útbreiðslusviðs Rauða kross Íslands, aðspurð um stöðu mála á Haítí.
Hún segir í samtali við mbl.is að ástandið sé skelfilegt í landinu. Jarðskjálftinn hafi riðið yfir höfuðborgina Port-au-Prince og lamað þannig alla stjórnsýslu í landinu, sem er eitt það fátækasta í heimi. Ljóst sé að umfangsmikið hjálparstarf sé framundan, sem nú sé nýhafið. Óttast er að tala látinna muni hækka.
Hún bendir á að íbúar Haítí hafi margsinnis þurft að þola náttúruhamfarir. Árið 2004 hafi orðið gífurleg flóð í landinu. Þremur árum síðar hafi þrír fellibyljir gengið yfir landið og tveir ári síðar, svo dæmi séu tekin. Þar við bætist áratugalöng pólitískt upplausn. Ástandið geti vart orðið verra.
Ekki liggur fyrir nákvæm tala um látna og slasaða, en forsætisráðherra landsins hefur sagt að hann óttist að um 100.000 hafi látist. Ljóst er að tugþúsundir fjölskyldna þurfi á tafarlausri neyðaraðstoð að halda.
RKÍ hefur hafið símasöfnun vegna jarðskjálftanna
Rauði kross Íslands hefur hafi símasöfnun vegna jarðskjálftans í landinu. Hægt er að hringja í símanúmerið 904 1500 til að gefa í söfnunin og þá bætast þá 1.500 kr. við símreikninginn viðkomandi. Það skal þó tekið fram að símtalið kostar 79 kr.Samkvæmt upplýsingum frá Símanum rennur andvirði símtalsins inn á reikning söfnunarinnar.
Einnig er hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.
Sólveig segir að tölur úr söfnuninni liggi ekki fyrir að svo stöddu, en að hún hafi hins vegar farið vel af stað.
Tíu alþjóðleg teymi eru komin til Haítí, sem eru öll sjálfbær að sögn Sólveigar. Þau hafa sett upp tjaldsjúkrahús sem á að geta þjónað 50 manns á dag. Þá eru færanleg teymi sem sinna almennri heilsugæslu, teymi sem sjá um að útvega hreint drykkjarvatn, teymi sem sér um að koma fólki í bráðabirgðaskjól, teymi sem sér um fjarskiptamál svo nokkur dæmi séu nefnd.
Alþjóða Rauði krossinn hefur sent út alþjóðlega neyðarbeiðni upp á 10 milljónir dala (um 1,2 milljarða kr.).
Barnaheill hefur einnig hafið söfnun
Barnaheill (Save the Children) á Íslandi hafa hafið söfnun vegna hamfaranna á Haítí. Hægt er að hringja í síma 904 1900 og dragast þá 1900 krónur frá símreikningnum (ath. Að símtalið kostar 75 krónur). Einnig er hægt að leggja inn á reikning samtakanna 0336-26-58 kt: 521089- 1059 eða að láta skuldfæra af kreditkorti og eru nánari upplýsingar á heimasíðu Barnaheilla. www.barnaheill.is.