Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar bíleigendur enn á ný við að geyma verðmæti í bílum sínum. Óprúttnir einstaklingar hafa verið iðnir við það að stela úr bílum að undanförnu og t.a.m var á einum sólarhring tilkynnt um fjögur innbrot í bíla í Mosfellsbæ. Úr öllum var stolið GPS staðsetningartækjum.
Nokkuð ljóst þykir að sami einstaklingur hafi verið á ferð í öllum tilvikum í Mosfellsbæ. Braut hann rúður í bílum sem stóðu við heimili, hrifsaði staðsetningartækið og hvarf á skotstundu af vettvangi. Hann er ófundinn og eru málin í rannsókn.
Einar Ásbjörnsson aðalvarðstjóri í Mosfellsbæ segir ljóst að þjófar leiti uppi bíla með slík tæki enda eftirspurn eftir þeim á svörtum markaði. Í mörgum tilvikum séu bíleigendur með tækin á mælaborði og blasi þau því við þjófunum. Hann vill minna bíleigendur á að hafa með sér úr bílum verðmæti eða alla vega fela þau þannig að ekki beri á þeim.