Viðskiptaráð segir, að komið hafi á daginn að breytingarnar, sem gerðar voru á skattkerfinu um áramótin, voru vanhugsaðar á ýmsum sviðum og enn sé óvíst hvort þær skili tilætluðum árangri til að rétta af halla á opinberum fjárhag eða bæta kjör þeirra efnaminni.
Viðskiptaráð segist á heimasíðu sinni telja, að stjórnvöld séu ekki á réttri leið í skattamálum og hafi bent ítrekað á þær hættur og ókosti sem fyrirliggjandi breytingum fylgja.
„Áhrif þessara breytinga verða veruleg og það er miður að stjórnvöld hafi ekki gefið sér betri tíma í að vinna breytingarnar. Ef gera á grundvallarbreytingar á þeirri hugmyndafræði sem íslenskt skattkerfi byggir á er það ekki ósanngjörn krafa að um þær verði haft víðtækt samráð og veitt verði tækifæri til samfélagslegrar rýni og umræðu um forsendur, framkvæmd og áhrif. Slíkt samráð átti sér ekki stað enda var málinu þrýst í gegnum þingið án nægjanlegrar efnislegrar umfjöllunar," segir Viðskiptaráð m.a.