Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út að Vesturbæjarskóla fyrir átta í morgun vegna vatnsleka. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu hafði kalt vatn lekið og lá yfir fyrstu hæð skólans. Um einn og hálfan tíma tók fyrir slökkviliðsmenn að sjúga upp vatnið. Skólahald fellur niður í dag sökum lekans.
Hildur Hafstað skólastjóri segir að vatnsrör í heimilisfræðistofu hafi rofnað í nótt. Rörið var undir innréttingu og svo virðist sem hné hafi gefið sig. Vatn lak um töluvert stórt svæði og óljóst hvers vegna niðurföll tóku ekki við því. Gólf í matsal og setustofu er ónýtt og rífa þarf gólfefni af og þurrka. Matsalurinn verður því lokaður næstu vikur. Verið er að athuga hvort vatn hafi einnig lekið inn í íþróttasal og valdið þar skemmdum.
Hildur segir foreldra hafa brugðist skjótt við og sótt börn sín en óumflýjanlegt var að fella niður skólahald, þar sem ekkert vatn var á skólanum og t.d. salerni þar með óvirk. Skólahald verður með óbreyttu sniði á morgun, fyrir utan að matur verður annað hvort framreiddur inni í kennslustofum eða íþróttasal. Unnið verður að útfærslunni í dag.