Ekki formleg niðurstaða

Bjarni Benediktsson kemur á fund í Stjórnarráðinu.
Bjarni Benediktsson kemur á fund í Stjórnarráðinu. mbl.is/Kristinn

Ekki náðist formleg niðurstaða á fundi flokksformanna í stjórnarráðinu síðdegis um um hvernig standa eigi að mögulegum viðræðum við Breta og Hollendinga um Icesave. Frekari fundir eru fyrirhugaðir, annað hvort um helgina eða á mánudag en unnið var í dag að sameiginlegri skriflegri yfirlýsingu um málið.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að fundurinn hafi verið jákvæður. Hún sagði að ekki lægi enn fyrir hvort möguleikar opnist á nýjum viðræðum en það myndi væntanlega liggja fyrir í fyrri hluta næstu viku.

Á meðan væru íslensku stjórnmálaflokkarnir að ræða um það hvernig haga eigi vinnubrögðum og vinnuferlinu ef ný leið opnaðist í þessu máli. Sagðist Jóhanna vera vongóð um að slíkur gluggi opnist.  

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist eftir fundinn gefa sér, að ágætar líkur væru á að hægt væri að ná Bretum og Hollendingum að samningaborðinu aftur. Verið væri að ræða um fyrirkomulag, ef viðræður færu af stað en enn ríkti óvissa um hvort þjóðirnar væru tilbúnar til viðræðna og á hvaða forsendum það yrði.

Bjarni sagði að stjórnmálaflokkarnir hefðu notað tímann til að ræða um hvort þeir geti verið sammála um hvað lagt yrði til grundvallar í slíkum viðræðum. Óvarlegt væri að ræða í smáatriðum hverjar áherslurnar ættu að vera en breið sátt væri um, að Íslendingar semji ekki upp á nýtt á þeirri forsendu að þeir hafi gert eitthvað af sér og ríkið hafi lagaskyldu til að taka á sig allar þessar skuldbindingar. 

Hann sagði aðspurður að nálgast þurfi málið út frá þeirri pólitísku forsendu, að regluverk Evrópusambandsins um fjármálamarkaðinn hefði rugðist.  Hann sagðist ekki myndu gera kröfu um, að fulltrúi Evrópusambandsins kæmi að hugsanlegum viðræðum Íslendinga við Breta og Hollendinga „en ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að Evrópusambandið hefði átt að standa miklu nær viðræðuferlinu," sagði Bjarni. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sagðist vera sáttur við þær viðræður sem átt hefðu sér stað milli flokkanna en óvissa ríkti enn um hvort hægt yrði að taka upp viðræður við Breta og Hollendinga.

Sigmundur Davíð sagðist telja, að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-lögin eigi að fara fram, bæði formsins vegna en einnig vegna þess að það myndi styrkja samningsstöðu Íslands ef lögunum verði hafnað. Þá yrði núverandi samningur úr sögunni og hreinna borð í nýjum viðræðum. Ekkert væri því þó til fyrirstöðu að ræða málin í millitíðinni.  

Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, sagði eftir fundinn í kvöld, að honum þætti stjórnmálaflokkarnir óttalega svifaseinir. Hann væri hins vegar tilbúinn að vinna áfram að þessari sátt þegar flokkarnir væru tilbúnir til að gera hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka