Íslendingar komist að réttri niðurstöðu

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

„Ég er sannfærð um að Íslendingar muni komast að réttri niðurstöðu. Við munum halda áfram með endurreisnaráætlun okkar á þeim grundvelli, og vonandi í samstarfi við alþjóðasamfélagið,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í samtali við breska tímaritið New Statesman.

Jóhanna er m.a. spurð út í stöðuna í Icesave-málinu, samskipti Íslendinga og Breta, jafnréttismál, Davíð Oddsson og Morgunblaðið og hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir Ísland.

Hún segir að margir Íslendingar séu þeirrar skoðunar að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hafi farið yfir strikið með því að setja hryðjuverkalög á Ísland í kjölfar bankahrunsins í lok árs 2008. Bretar hefðu ekki brugðist við með sama hætti ef um stærra ríki hefði verið að ræða. Þetta eigi sér engin fordæmi.

Hún segir að Brown hafi verið vonsvikinn með ákvörðun forseta Íslands um að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Hann hafi hins vegar heitið því starfa áfram með íslenskum stjórnvöldum og vinna að því að finna lausn á deilunni. 

Hvað varðar fjármálahrunið og hverjir beri ábyrgð á því, þá bendir Jóhanna á það að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis sé væntanleg. Þeir sem beri ábyrgð muni verða sóttir til saka. Ríkisstjórnin vinni jafnframt hörðum höndum að því að hrunið muni ekki endurtaka sig. 

Hvað varðar Ísland og Evrópusambandið þá segir Jóhanna að hún bindi vonir við að Ísland hefji aðildarviðræður við sambandið snemma á þessu ári.

Spurð út í Icesave-skuldirnar segir Jóhanna að nánast hver og einn Íslendingur sé þeirrar skoðunar að það sé ósanngjarnt að íslenskir ríkisborgarar eigi að bera ábyrgð á mistökum bankanna. „En einhver verður að borga. Spurningin er í raun sú hvernig hægt sé að dreifa byrðinni á milli hlutaðeigandi aðila.“

Hún ítrekar að Ísland muni standa við skuldbindingar sínar. Það muni jafna sig þegar búið verði að leysa Icesave-deiluna. „Við eigum í nánum samskiptum við ríkisstjórnir Breta og Hollendinga, Norðurlandaþjóðirnar og önnurríki, auk ESB og AGS.

Hún er síðan spurð um skoðun hún hafi á því að Davíð Oddsson sé orðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Jóhanna svarar, að það sé almenn skoðun að Davíð hafi breytt Morgunblaðinu úr víðsýnu blaði á hægri væng í baráttutæki fyrir eigin skoðanir. Það sé hins vegar eigenda blaðsins að svara fyrir þá ákvörðun að ráða hann ritstjóra.

„Tími okkar er takmarkaður, en andinn er frjáls,“ segir Jóhanna þegar blaðamaður spyr að lokum hvort við séum öll dauðadæmd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert