Meirihluti bæjarstjórnar Vestmannaeyja lagði fram ályktun á bæjarstjórnarfundi í dag þar sem lýst er undrun á framkomu samgönguráðherra og að hann skuli með þeim hætti setja helstu hagsmuni Vestmannaeyja í farveg vantrausts og flokkspólitískra hagsmuna.
Við afgreiðslu ályktunarinnar sat minnihlutinn hjá og harmaði í bókun að umræður um samgöngumál væru komin á þetta stig.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri, segir í tilkynningu, að ráðherra hafi í opnu bréfi í vikunni uppnefnt embættismenn Vestmannaeyjabæjar og reynt að íhlutast um það hvaða fulltrúa bæjarstjórn feli framkvæmdir erinda sinna og virði að vettugi sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélagsins.
„Nú þegar ráðherra hefur skammað bæjarstjórn fyrir að skilja ekki þörfina fyrir sparnað hefur honum ekki enn skilist að bæjarstjórn er fyrst og fremst að óska eftir upplýsingum. Upplýsingum sem einar og sér kosta ekki pening en kalla á vandaða stjórnsýslu. Bæjarstjórn veit því ekki enn hvernig gjaldskráin í Herjólf verður eftir að siglingar í Land-Eyjahöfn hefjast. Hún veit heldur ekki hvernig áætlun skipsins verður eftir að siglingar í Land-Eyjahöfn hefjast verður né hvernig samgöngum milli Bakka og Reykjavík verður. Stýrihópar sem vinna að því að undirbúa samfélagið fyrir hinar miklu breytingar sem þessu fylgja hafa nú lagt niður störf sín og telja sig ekki geta unnið undirbúning á meðan samgönguyfirvöld veita ekki upplýsingar. Það ástand telur bæjarstjórn á ásættanlegt jafnvel þótt það styggi ráðherra og kalli á skammir og uppnefni frá honum," segir Elliði m.a.