Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akranes flytur ræðu á Austurvelli á morgun ásamt Guðrúnu Döddu Ásmundardóttur úr stjórn Hagsmunasamtökum heimilanna og Birki Högnasyni, formanni ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands. Fundarstjórn í höndum Lúðvíks Lúðvíkssonar.
Um er að ræða sjötta kröfufund nýs Íslands og Hagsmunasamtaka heimilanna í vetur, en fundurinn hefst að vanda kl. 15.
Þeir sem standa að baki nýju Íslandi hafa skorað á alþingismenn að mæta á Austurvöll á morgun til að reyna að öðlast skilning á kröfum þeirra sem byggja landið.
Síðast þegar fréttist höfðu aðeins tveir þingmenn boðað komu sína, þ.e. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, og Birgitta Jónsdóttur, þingmaður Hreyfingarinnar. Nokkrir höfðu hins vegar boðað forföll.
Í frétt á vef skipuleggjenda kemur fram að ákveðið hafi verið að vekja alla alþingismenn upp í fyrramálið með því að heimsækja þá og minna þá á kröfufundinn og kröfur fólksins í landinu.