Launakostnaður Landspítalans á síðasta ári nam 26.680 milljónum króna, ríflega 1% yfir áætlun sem tók mið af 2.990 milljóna kr. niðurskurði. Frá september til loka ársins fækkaði stöðugildum um 70, að mestu án uppsagna segir Björn Zoega, forstjóri LSH, í föstudagspistli sínum.
Björn segir að í lok ágúst sl. hafi staðan varðandi launakostnað verið töluvert verri, eða um 5% umfram áætlun. Það hafi leitt til til róttækra sparnaðaraðgerða sem kynntar voru í haust og ljóst að þær aðgerðir hafi skilað miklum árangri.
„Það er ljóst að með samstilltu átaki allra starfsmanna hefur tekist að draga
verulega úr kostnaði spítalans síðustu þrjá mánuði ársins þannig að í raun varð
afgangur af rekstrinum þessa mánuði. Þetta er frábær árangur," segir Björn í pistli sínum.
„En við verðum að halda okkar striki á þessu ári og ná markmiðum okkar um að
veita góða og örugga spítalaþjónustu innan ramma fjárlaga. Áfram verður unnið
að því að draga úr breytilegri yfirvinnu en á árinu 2009 minnkaði hún um rúm
25%. Allt þetta sýnir hversu vel getur tekist til á spítalanum ef allir eru
samtaka," segir Björn ennfremur.
Stýrihópur um stefnumótun spítalans hefur verið settur á laggirnar. Hvetur forstjórinn starfsmenn sína til að hafa samband við stýrihópinn og koma hugmyndum og tillögum þar á framfæri. Markmiðið sé að stefna spítalans verði einföld, skilvirk og nýtist vel í daglegri vinnu.