Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að það séu lagaleg vandkvæði á því að Icesave-lögin frá því í ágúst geti tekið gildi, jafnvel þó að Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvara sem Alþingis setti við lögin sem þeir hafa ekki enn gert.
Steingrímur sagði að ef Icesave-lögin frá því í desember yrðu felld úr gildi tækju lögin frá því í ágúst formlega séð gildi, en Bretar og Hollendingar hefðu hins vegar ekki samþykkt þá fyrirvara sem þingi hefði sett fyrir gildistöku laganna. Fleira væri hins vegar í veginum.
„Það er mat lögfræðinga að það séu vandkvæði á framkvæmd ágústlaganna [fyrri laganna um Icesave] okkar sjálfra vegna, jafnvel þó að Bretar og Hollendingar féllust á allt sem að þeim snýr, einfaldlega vegna þess að það getur verið vandkvæði fyrir tryggingasjóðinn að takast á við skuldbindinguna og það geta verið vandkvæði á því fyrir fjármálaráðherra að veita ábyrgðina.
Niðurstaðan og aðalatriði málsins er það að það er ekki komið lausn í málið með því að desemberlögin falla úr gildi, heldur þvert á móti er það þá áfram óleyst,“ sagði fjármálaráðherra eftir ríkisstjórnarfund.
Steingrímur sagði ekki tímabært að kveða upp úr um það að nýjar viðræður við Breta og Hollendinga hæfust. „En við viljum undirbúna okkur og vera vel undir þann möguleika búin.“