Jeppi festist í Öxará við Svartagil laust eftir hádegið í dag. Fólkið á jeppanum hafði farið yfir ána snemma dags, til þess að fara í göngutúr í nágrenni Þingvalla, en farið er þessa leið í átt að Botnssúlum og gönguleiðinni Leggjabrjóti. Þegar göngufólkið ætlaði að snúa aftur niður á Þingvelli var hins vegar búið að vaxa mikið í ánni vegna úrkomu og svo fór að þau festu jeppann úti í miðri ánni.
Þau gátu þó óskað eftir hjálp, en svo mikið var í ánni að þau þurftu að hafast við uppi á þaki bílsins þar til hjálpin barst. Hafði þá flætt inn í bílinn og gusaðist eitthvað upp á vélarhlífina.
Tvær björgunarsveitir mættu á staðinn, Ingunn frá Laugarvatni og Tintron úr Grímsnesi. Stórum pallbíl frá björgunarsveitinni var bakkað út í ána og fór fólkið þá yfir á pallinn. Svo tókst að draga jeppann upp úr ánni. Hann hafði þá orðið fyrir töluverðum vatnsskemmdum., að sögn lögreglunnar á Selfossi, sem var fyrst á vettvang.