Flokksráð ítrekar andstöðu VG við inngöngu í Evrópusambandið

Flokksráðsfundur VG á Akureyri
Flokksráðsfundur VG á Akureyri Skapti Hallgrímsson

Flokksráð VG ítrekar andstöðu sína við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir að nú hafi verið sótt um aðild að sambandinu, er það eindreginn vilji flokksráðs að Ísland haldi áfram að vera sjálfstætt ríki utan Evrópusambandsins, að því er segir í ályktun sem samþykkt var í dag.

Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hvetur ráðherra, þingmenn og félagsmenn Vinstri grænna um allt land til að halda stefnu flokksins um andstöðu við aðild Íslands að ESB á lofti og berjast einarðlega fyrir henni.

Í ljósi afstöðu flokksins telur flokksráðið brýnt að til verði fastur farvegur skoðanaskipta um Evrópumál á vettvangi flokksins og hvetur til ítarlegrar umfjöllunar um þau, m.a. með málþingum og málefnastarfi. 

Flokksráðið felur stjórn flokksins að skipa sérstakan starfshóp til að fylgjast grannt með því ferli sem nú er í gangi og tryggja upplýsingaöflun innan flokksins og til að starfa með þingflokki og fulltrúum flokksins í utanríkismálanefnd að Evrópumálum.  Flokksráðið leggur sérstaka áherslu á gegnsæi í umsóknarferlinu og hvetur til opinna umræðu- og fræðslufunda um ESB þar sem öll sjónarmið, kostir og gallar, eru dregin fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka