Flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er framhaldið á Akureyri í dag. Að sögn Drífu Snædal, framkvæmdastýru Vinstri grænna, var skipaður fjölda málefnahópa í bítið sem hafi það að verkefni að fara yfir þær fimmtíu ályktanir sem fyrir fundinn lágu. Segir hún margar ályktananna vera svipaðar eða ámóta og því sé unnið að því að sameina þær og snyrta orðalag, en búast megi við því að alls verði um tuttugu ályktanir afgreiddar á fundinum eftir hádegi.
Að sögn Drífu hafa fundarmenn nýtt tímann vel og talað saman og því megi búast við því að fundargestir komist að góðri niðurstöðu í lok fundar. Segir hún umræður fjörugar og heitt blóð í fólki, en engu að síður mjög góður andi.
Alls taka um 130 félagsmenn þátt í flokksráðsfundinum. Stór hluti fundargesta eru kjörnir fulltrúar flokksins, fulltrúar kjörnir á landsfundi sem og stjórn og fulltrúar úr ungliðahreyfingunni, en allir þessir aðilar hafa atkvæðisrétt á fundinum. Drífa minnir á að allir félagar hreyfingarinnar eigi seturétt á flokksráðsfundi og áætlar hún að um helmingur fundargesta séu almennir félagsmenn sem vilji fylgjast með og móta flokksstarfið.