Ekki of flókið árið 2003

Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi. Heiðar Kristjánsson

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á Alþingi árið 2003, þá sem þingmaður, að það væri „einhver allra ömurlegasti málflutningur“ sem hann heyrði að sum mál væru svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði. Steingrímur segir nú við sænska fjölmiðla að Icesave-málið sé of flókið fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ummælin fyrir sjö árum lét Steingrímur falla í ræðu á þinginu um frumvarp vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þar talaði hann um virkjunina sem mesta umhverfis- og efnahagsslys Íslandssögunnar.

„Treystum við ekki þjóðinni? Ekki getur það verið vandinn að nokkrum manni í þessum sal, þingræðissinna, detti í hug að þjóðin sé ekki fullfær um að meta þetta mál sjálf og kjósa um það samhliða því að hún kýs sér þingmenn. Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði. Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri. Menn geta alveg eins haft ónefnd orð um gáfnafar þjóðarinnar, og það ætla ég a.m.k. ekki að gera. Það er ekkert í þessu máli sem er þannig vaxið að það sé ekki auðvelt að upplýsa um það og kynna það. Við höfum mikil gögn," sagði Steingrímur m.a. á Alþingi í mars árið 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka