Íslensku björgunarsveitarmennirnir á Haítí eru nú komnir á áfangastað í borginni Léogane og hafa slegið upp búðum þar ásamt hópi annarra björgunarsveita. Að sögn Gísla Rafns Ólafssonar, eins stjórnenda sveitarinnar, er eyðileggingin mikil í borginni, en fram til þess hefur ekkert alþjóðlegt hjálparlið náð á staðinn.
Sjálfur flaug Gísli yfir svæðið í þyrlu í morgun og segir að á milli höfuðborgarinnar og Léogane hafi mátt sjá að um 20% húsa voru eyðilögð. „Þarna var fullt af fólki sem greinilega býr bara undir berum himni og er með smá tjald eða dúk til að skýla sér fyrir sólinni."
Það tók sveitina um 90 mínútur að keyra til borgarinnar, um 40 kílómetra leið og segir Gísli veginn hafa verið í þokkalegu standi. Það sem hinsvegar tefji hjálparstarf hvað mest í landinu sé vöntun á fleiri flutningatækjum og erfiðleikar í samskiptum þar sem flestir reiði sig á stopula gervihnattasíma. Íslenska sveitin sé ein af örfáum sem búi að því að hafa mjög öflug fjarskiptatæki og talstöðvar auk þess sem þeir tryggi að sveitin hafi ávallt með sér gervihnattasíma á vettvangi.
Björgunarsveitarmennirnir munu í dag og á morgun fara um borgina, kanna ástandið og reyna að finna fólk á lífi áður en snúið verður aftur til höfuðborgarinnar Port-au-Prince.