Í ískönnunarflugi þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag kom í ljós hafís við Hornbjarg sem hefur nánast náð landi við Hornbjargsvita. Ísinn liggur til austurs í áttina að Óðinsboða, talsverður rekís og spangir en þó er fært gegnum ísinn með aðgát.
Eitt skip fór í gegn um ísinn meðan flogið var yfir en Landhelgisgæslan varar sjófarendur við aðstæðum og mælir með að fylgst verði með sjávarhita. Þegar flogið var yfir var þoka og lélegt skyggni á svæðinu.
Hér má sjá ratsjármynd frá ESA-Kiruna sem sýnir hafísinn við Hornstrandir um ellefuleytið í gærkvöldi. Kortið kemur frá Jarðvísindastofnun Háskólans.