Norðmönnum ber að aðstoða

Norðmönnum ber að veita Íslendingum aðstoð með lánveitingu til lengri tíma. Til framtíðar litið gæti bandalag landanna tveggja reynst skynsamleg ráðstöfun með sameiginlegri mynt og fiskveiðistjórnun. Þannig skrifar Øystein Noreng, prófessor við Viðskiptaháskólann BI, í aðsendri grein í norska dagblaðinu Dagsavisen.

„Íslendingar hafa góðar ástæður fyrir því að hafna samkomulagi við Bretland og Holland um bætur vegna þess sem tapaðist á Icesave-reikningunum. Réttarstaðan er óljós, breskir og hollenskir innstæðueigendur völdu sjálfir að taka áhættu með því að leggja peninga sína inn á íslensku netreikningana. Þeir voru lokkaðir með loforð um háa vexti, en á móti kom að áhættan var einnig há og það hefðu þeir átt að gera sér grein fyrir. Eigandinn, Landsbankinn var banki í einkaeigu, og naut því ekki ríkisábyrgðar. Breskir og hollenskir innstæðueigendur njóta verndar af innstæðutryggingum heimalanda sinna, þeim var aldrei lofuð íslensk ríkistrygging á áhættusömum innstæðum sínum,“ segir Noreng.

Hann bendir á að í ljósi þessarar forsögu ráðleggi margir málsmetandi álitsgjafar, þeirra á meðal Martin Wolf í Financial Times, Íslendingum frá því að samþykkja samkomulagið og greiða. „Fleiri sem kynnt hafa sér málið telja að íslenska ríkinu sé samkvæmt alþjóðlegum og evrópskum reglum alls ekki skylt að greiða bætur til handa innstæðueigendum og að Bretar gætu alls ekki verið öruggir um að vinna hugsanleg málaferli vegna þessa.“

Noreng rifjar upp að þegar bandaríski bankinn Lehman Brothers varð gjaldþrota haustið 2008 hafi erlendir lánadrottnar ekki fengið neinar bætur úr hendi bandarískra stjórnvalda, en innstæðueigendum í Bandaríkjunum fengu innstæður sínar bættur úr hendi seðlabanka landsins. Bendir hann á að norsk sveitarfélög hafi keypt í skuldabréf af Citibank sem gefin voru út af Lehman, en að ekki hafi komið til greina að biðja Washington um að greiða bætur vegna þessa.

„Í stuttu máli er pólitíski bakgrunnurinn sá að Gordon Brown ákvað upp á eigin spýtur í október 2008 að loka á starfsemi Icesave í Bretlandi án nokkurs samráðs við íslensk stjórnvöld um mögulegar lausnir. Því næst notaði Brown hryðjuverkalög til þess að frysta eignir íslenska ríkisins og íslenska seðlabankans í Bretlandi. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu íslensk stjórnvöld haft möguleika á því að semja við innstæðueigendur um takmarkaðar bætur til viðbótar við þær upphæðir sem breskar og hollenskar innstæðutryggingar tryggðu.

Brown forsætisráðherra vildi hins vegar átök. Í aðdraganda komandi þingkosninga vonar hann að Icesave-deilan gagnist honum. Bretland getur orðið næsta land innan Evrópu sem fer í þrot og þarf hugsanlega síðar á árinu að leita sér aðstoðar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Allt útlit er nú fyrir það að íslenska þjóðin muni hafna samkomulaginu í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Að mati Øysteins Norengs virðast óhjákvæmilega þrjár lausnir blasa við Íslandi. Fyrsta leiðin sé að landið reyni að spjara sig á eigin spýtum og treysti því að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beiti landið ekki þrýstingi. Að svo miklu leyti sem Ísland geti fengið lán frá AGS, án þess að Icesave-málið leysist, þá sé von til þess að hagvöxtur verði í landinu á ný eftir nokkur ár en í millitíðinni munu lífskjör versna, skrifar Noreng.

Önnur lausn sé að leitað verði aðstoðar hjá Norðmönnum. „Noregur er leiðandi lánadrottinn og fjárfestir í heiminum í dag og hefur alla fjárhagslega burði til þess að aðstoða Ísland. Auðvitað ber Norðmönnum ekki að greiða bætur vegna þess sem tapaðist í Icesave, en þeir gætu boðið langtímalán sem getur aðstoðað Íslendinga við að ná undir sig fótunum á ný. Vissulega þarf að setja ströng skilyrði og kröfu um að tekið verði til í íslensku fjármálalífi með hugsanlegum málaferlum á hendur þeim sem ábyrgð bera á íslensku bankakreppunni.

Íslendingum stendur hins vegar þriðja leiðin fær og það er leita ásjár Rússa, sem eru hægt og bítandi sjálfir að rétta úr kútnum fjárhagslega séð. Rússar búa yfir gjaldeyrisforða sem gæti komið Íslendingum til góða. Reikna má með að það veki andstöðu veiti Rússar Íslendingum aðstoð, sem væntanlega styrkir fjárhagsleg og stjórnmálaleg tengsl landanna tveggja. Rússland myndu þá verða mikilvægt viðskiptaland fyrir Ísland og uppspretta fjármuna og hugsanlega einnig matvæla. Slík lausn gæti reynst Rússum vel og gæti veitt þeim nokkurs konar fótfestu á Íslandi og aukið áhuga þeirra á Norður-Atlantshafinu og styrkt stöðu bæði Íslendinga og Rússa í Norður-Atlantshafinu gagnvart Noregi.“

Øystein Noreng sér slíkri lausn allt til foráttu og bendir á að fyrir Norðmenn væri þetta ekki góð þróun, þar sem þeir yrðu í verri samningsstöðu gagnvart tveimur lykilkeppinautum í Norður-Atlantshafi. „Með fjárhagslega og stjórnmálalega fótfestu á Íslandi myndu Rússar styrkja stöðu sína gagnvart Noregi þegar kemur að norðurhveli jarðar. Sökum þessa er það beinlínis í hag Norðmanna að rétta Íslendingum hjálparhönd á núverandi tímapunkti. Það er ekki hægt að ætlast til þess að Norðmenn þrýsti á um það gagnvart AGS að hann samþykki fjárhagsáætlun Íslands. AGS hefur um margra áratuga skeið haft stranga markaðshyggju í anda Bandaríkjanna á stefnuskrá sinni.“

Að mati Norengs væru fyrsta skrefið í aðstoð Norðmanna fólgið í því að leyfa Íslendingum að taka upp norsku krónuna auk þess sem norska fjármálaeftirlitið ætti að hafa eftirlit með íslensku fjármálalífi.

„Fjármálalífið á Íslandi er einsleitt og brothætt og sagan sýnir að Íslendingar hafa ekki verið heppnir með peningamálastefnu sína. Duglegum starfsmönnum íslenska fjármálaeftirlitsins hafa fengið gylliboð frá einkareknu bönkunum. Afleiðingin er kreppa og gjaldþrot.

Fyrir Ísland myndi sameiginleg mynt með Noregi fela í sér að landið fengið stöðugan gjaldmiðil og gengisáhættan myndi minnka sem svo eftir myndi þýða að innstæður almennings væru betur tryggðar þó vissulega væru vextir reikninganna lægri,“ skrifar Noreng. Tekur hann fram að Íslendingar yrðu vissulega að aðlaga sig að peningamálastefnu Norðmanna verði myntsamstarfið að veruleika. 


Næsta skref, að mati Norengs, gæti verið aukið samstarf í fjármálum landanna, með aukinni samvinnu á sviði hafréttar- og fiskveiðistefnu, jafnvel sambærileg gagnkvæm réttindi borgara landanna tveggja. Telur hann ljóst að slík samvinna gæti gæti einnig staðið Færeyingum og Grænlendingum til boða.

„Gagnvart ESB og Rússlandi myndu samband Íslendinga og Norðmanna standa sterkara. Gagnvart ESB myndu Íslendingar og Norðmenn standa sterkari saman, hvort sem löndin tvö velja að standa utan við sambandið eða velja á síðari tímapunkti að sækja um aðild,“ skrifar Noreng.  

Grein Øysteins Norengs í Dagsavisen






mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka