„Umræða um sjávarútveginn núna er sérstök,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna. Hann segir spjót standa á útgerðarmönnum þessa dagana og stjórnvöld fari fram með óvægnum hætti.
Nefnir hann þar fyrningarleiðina, en áformað er að taka 5% aflaheimilda af handhöfum þeirra á hverju ári og bjóða svo upp. Þær fyrirætlanir koma að óbreyttu til framkvæmda í haust.
Starfandi er nefnd sem vinnur að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Frá því í nóvember sl. hafa fulltrúar LÍÚ hins vegar haldið sig utan starfs nefndarinnar, það er eftir að sjávarútvegsráðherra gerði uppskátt með að hefja skyldi fyrningu aflaheimilda í skötusel. „Með því voru forsendur okkar um þátttöku í starfi nefndarinnar brostnar,“ segir Friðrik og bætir við að útreikningar sýni að fyrning aflaheimilda, þó að á löngum tíma verði, stefni sjávarútvegsfyrirtækjum í þrot. Þá standist fyrning aflaheimilda hvorki atvinnu- né eignarréttarákvæði stjórnarskrár að mati lögmanna sem kannað hafa málið fyrir LÍÚ. „Útgerðarmenn hafa skyldur gagnvart starfsfólki, viðskiptavinum, lánardrottnum og fleirum. Eðlilega velta menn því fyrir sér að stefna flotanum í land,“ segir Friðrik.
Sjávarútvegsmálin eru víða til umfjöllunar. Í pistli á vefsíðu Snæfellsbæjar segir Kristinn Jónasson bæjarstjóri hættumerki á lofti. Óvissa sem ríkisstjórnin hafi sett á sjávarútveg sé óþolandi. „Þegar vel gengur hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum þá gengur betur hjá okkur hinum.“