Karlmaður, sem var handtekinn eftir innbrot í veitingahúsið Kaffi krús á Selfossi um helgina, hefur játað á sig aðild að fjölda innbrota og þjófnaða á Suðurlandi. Hefur maðurinn verið úrskurðaður í 4 vikna gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar á Selfossi.
Lögreglumenn fengu tilkynningu um það aðfaranótt sunnudag, að þjófavarnakerfi hafi farið í gang á Kaffi krús og fóru þeir strax á staðinn. Þegar þar kom sást maður á hlaupum frá staðnum. Ekki dugði honum forskotið og náðist hann fljótlega. Hann var handtekinn og færður í fangageymslu.
Lögreglan segir, að við yfirheyrslur á Selfossi hafi maðurinn viðurkennt aðild að mörgum innbrotum á Selfossi, Hvolsvelli og víðar, þjófnaði á díselolíu, sölu og dreifingu fíkniefna framleiðslu, sölu á landa og tvær líkamsárásir.
Þessi sami maður var handtekinn fyrir skömmu vegna innbrots í fyrirtæki á Selfossi. Vegna síbrota mannsins gerði lögreglustjórinn á Selfossi kröfu um að hann yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald í fjórar vikur. Dómari varð við því.
Lögreglan segir, að tíminn verði vel nýttur til að ljúka rannsókn og sé áætlað að ákærur liggi fyrir í þessari viku. Þar sem maðurinn sé af erlendu bergi brotinn verði farið fram á að Útlendingastofa vísi honum frá landi.
Dagbók lögreglunnar á Selfossi