Afar ólíklegt er að niðurstaða fáist í mál Haga á stjórnarfundi Arion banka á þriðjudag. Mun stjórnin ræða fram komið tilboð stjórnenda Haga, Jóhannesar Jónssonar og erlendra fjárfesta um endurskipulagningu á 1998 ehf., móðurfélagi Haga, en bankinn hefur tekið til sín nær allt hlutafé í 1998 ehf., eins og áður hefur komið fram.
Í samtali við Morgunblaðið sagði einn stjórnarmaður í Arion að það kæmi sér á óvart ef niðurstaða fengist í málið á þriðjudag, enda væri málið ekki komið svo langt á veg að niðurstöðu væri að vænta. Annar stjórnarmaður sagði málið stórt og flókið og að það krefðist ítarlegrar skoðunar áður en ákvörðun yrði tekin.
Ekki hefur komið fram hvað felst í áðurnefndu tilboði og óljóst er hve mikið reiðufé tilboðsgjafar eru tilbúnir að greiða fyrir fyrirtækið.
Sjá nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.