Kennarar senda 2 milljónir til Haítí

Frá björgunaraðgerðum á Haítí.
Frá björgunaraðgerðum á Haítí. Ljósmynd/Landsbjörg

Kennarasamband Íslands hefur ákveðið að leggja ellefu þúsund evrur eða um 2 milljónir íslenskra króna inn á söfnunarsjóðsreikning Alþjóðasambands kennara til styrktar Haítí.

Samkvæmt upplýsingum frá KÍ verður féð notað til uppbyggingar menntunar og skólastarfs og stuðnings nemendum og kennurum í landinu. Þessi upphæð jafngildir því að hver félagsmaður KÍ, jafnt starfandi kennarar sem og eftirlaunaþegar, greiði eina evru til hjálpar- og uppbyggingarstarfsins í þessu hrjáða landi.

KÍ er aðili að Alþjóðasambandinu (Education international, EI) ásamt 400 öðrum kennarasamtökum í 172 löndum, þar á meðal CNEH (Confédération Nationale des Educateurs d'Haïti) sem er kennarasambandið á Haití.

Í bréfi til allra aðildarsamtaka í tilefni af jarðskjálftanum sagði Fred van Leeuwen framkvæmdastjóri EI meðal annars: „Við erum öll með hugann við eftirlifendur og haítísku þjóðina á þessum hörmungatímum. Langtímaáhrif jarðskjálftans verða gríðarleg og EI mun af alefli aðstoða CNEH við að styðja kennara, nemendur og samfélagið í heild í því verkefni að byggja upp líf sitt að nýju og geta snúið aftur í skólann og til vinnu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert