„Þetta eru mun verri hamfarir en það sem við höfum áður tekist á við, þetta virðast ætla að verða einhverjar mestu hamfarir í mjög, mjög langan tíma,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, einn stjórnenda íslensku rústabjörgunarsveitarinnar á Haítí.
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, hefur sagt hamfarirnar á Haítí þær mestu í áratugi.
Íslenska sveitin hefur nú fært sig um set til borgarinnar Léogane þar sem eyðileggingin er jafnvel meiri en í höfuðborginni. Að sögn Sameinuðu þjóðanna hafa 43 björgunar-sveitir grafið yfir 70 manns á lífi úr rústunum síðan skjálftinn varð.
Vandamálin halda hinsvegar áfram að hrannast upp á Haítí og það gera líkin líka og ríður á að losna við þau áður en smitsjúkdómar brjótast út. Sumstaðar hafa lík verið grafin eða brennd, en um leið er þá komið í veg fyrir að unnt verði að bera kennsl á hina látnu.
Straumur hjálpargagna er þó orðinn stríðari til landsins og hjálparstarfið samhæfðara. Sameinuðu þjóðirnar hyggjast boða til alþjóðaráðstefnu um aðstoð við Haítí.
Sjá nánar um stöðu mála á Haití í Morgunblaðinu í dag.