Íbúðalánasjóður sendi um 850 nauðungarsölubeiðnir á síðustu tveimur mánuðum ársins. Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, segir þessar tölur benda til þess að margir séu ekki að nýta sér þau úrræði sem séu í boði. Hún hvetur fólk í greiðsluerfiðleikum til að snúa sér til viðskiptabanka sinna.
Þessar nauðungarsölubeiðnir komu fram eftir að Alþingis samþykkti lög um almenna greiðslujöfnun og fleira, en lögin voru samþykkt í lok október í fyrra. Markmið lagana var að stuðla að því að fólk missti ekki húseignir sínar vegna greiðsluerfiðleika.
Viðskiptanefnd hefur átt tvo fundi þar sem fjallað hefur verið um þau úrræði sem fjármálastofnanir eru að bjóða fólki og fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum. Lilja segir ljóst að bankarnir séu að bjóða mismunandi lausnir. Íslandsbanki sé að bjóða öllum höfuðstólsleiðréttingu, líka þeim sem eru með verðtryggð lán. Arion banki og Landsbankinn séu hins vegar að bjóða þeim sem eru með verðtryggð lán almenna greiðslujöfnun, en þeim sem séu í greiðsluerfiðleikum sé boðið að afskrifa þann hluta skulda sem sé umfram 110% af eignum.
Lilja segir að þau úrræði sem eru í boði séu mismunandi og fyrir marga sem ekki þekki inn á fjármálalífið virki þetta flókið. Þar að auki geti verið að fólk sé hrætt við að taka ákvörðun. Þetta geti að kannski skýrt hvers vegna fólk nýti sér ekki þau úrræði sem séu í boði í eins miklum mæli og vonast var eftir. Hún segir að þeir sem séu í vanskilum hjá Íbúðalánasjóði og einnig með skuldir í bönkum eigi að snúa sér til síns viðskiptabanka.
Á fundum viðskiptanefndar kom fram að þeir sem fara í greiðsluaðlögun þurfa að bíða eftir því úrræði í mjög langan tíma, allt upp í sex mánuði. Lilja sagði þetta allt of langan tíma. Margir sem séu í vanskilum þoli ekki að bíða eftir úrlausn í svo langan tíma. Hún segir að félagsmálaráðherra sé nú að undirbúa frumvarp þar sem tekið verði á þessu.
Viðskiptanefnd Alþingis ætlar að taka saman skýrslu um úrræði sem fjármálastofnanir eru að bjóða fólki í greiðsluerfiðleikum og hversu margir eru að nýta sér þessi úrræði.